Öryggismál

 

Hjá Hafnarfjarðarhöfn eru öryggismál í fyrirrúmi. Hafnarfjarðarhöfn uppfyllir hafnarreglugerð um öryggissmál. Á öllum masturshúsum (sem eru með mest 90 m millibili) er margskonar björgunarbúnaður, svo sem krókstjakar, bjarghringir, björgunarnet, björgunarbelti ofl. Lýsing er í bryggjustigum á flestum bryggjum og á flotbryggjum ná björgunarstigar vel niður í sjó. 

Sjófarendur og starfsmenn á hafnarsvæðum Hafnarfjarðarhafnar eiga því að vera nokkuð öryggir við störf sín.

Í reglugerð nr 326/2005 um hafnamál er að finna allar kröfur löggjafans um öryggismál í höfnum.

Siglingavernd

Með gildistöku laga nr. 50/2004 hófst innleiðing siglingaverndar, en hún felst í að vernda flutningaskip, farþegaskip og hafnaraðstöður fyrir hryðjuverkum eða ólögmætum aðgerðum. Einnig að gæta þess að hryðjuverkamönnum og búnaði til hryðjuverka verði ekki smyglað um borð í skip til að fremja hryðjuverk hjá þriðja aðila.

Ákvæði þessara laga byggjast á alþjóðum samþykktum SOLAS 1974 og ISPS (Kóði-A og Kóði-B). 

Siglingavernd skiptist í fjóra megin þætti; skipavernd, hafnarvernd, farmvernd og farþegavernd.

Það eru aðallega þrennt sem þarf að hafa í huga fyrir hafnaraðstöður með tilkomu siglingaverndar þ.e. lokun svæða, aðgangsstýring og vöktun.

Ávalt skal hafa í huga að verndarfulltrúi hafnar ber ábyrgð á framkvæmd siglingaverndar og þeir einir geta séð um öryggisgæslu sem lokið hafa námskeið “fyrir starfsmenn með hlutverk” í siglingavernd og skipverjar. Reglur Tollgæslunnar gilda um farmvernd.

Markað er skýrt að óviðkomandi umferð á hafnarsvæði sé óheimil og aðgangsstýrt sé inn á hana. Hafnaraðstaða er mörkuð með borðum og skiltum. Unnt er að fela þeim aðilum sem hafa sótt námskeið “fyrir starfsmenn með hlutverk” öryggisgæslu. Verndarfulltrúi hafnarinnar ber ávalt ábyrgð á því að hafnaraðstaða sé vöktuð. Vöktun getur verið með myndvélum og/eða staðbundinni vöktun. Ef þriðja aðila er falin að framkvæmd með siglingavernd þá ber verndarfulltrúa að fylgjast með að viðkomandi framfylgi henni.

Kröfur sem gerðar eru til hafnaraðstöðu eru breytilegar eftir umfangi og starfsemi en til einföldunar má almennt skipta hafnaraðstöðum í þrennt:

Gámahafnasvæði

Gerð er krafa um að hafnaraðstaða sé afgirt, aðgangsstýrð og reglulega vöktuð. Fylgjast þarf með hverjir fara inn á hafnaraðstöðu og í hvaða erindagjörðum þeir eru. Einnig þurfa gámar sem fara inn á svæðið að vera með farmbréf og innsigli sbr. kröfu Tollgæslunnar.Höfnin getur falið þriðja aðila að sjá um öryggisgæslu þ.e. skipaútgerð, löndunarhóp, fyrirtæki eða öðrum eftir atvikum.

Farþegaskipasvæði

Hafnaraðstaða afgirt, aðgangsstýrð og vöktuð. Fylgjast þarf hverjir fara inn á hafnaraðstöðuna og hverjir eru þar. Öryggisleit á farþegum fer að jafnaði fram um borð í skemmtiferðaskipinu nema annars sé óskað. Vöktun skal vera á meðan skipið er í höfn og skal meginreglan vera sú að það sé vaktað frá landi, en unnt er að fela skipi vöktun ef aðstæður leyfa.

Lausavöruhafnarsvæði, tilfallandi skipakomur

Ef umfangið er lítið þá nægir að vera með færanlegar girðingar eða borða og skilti um að óviðkomandi sé bannaður aðgangur, annars skal vera með varanlegar girðingar. Unnt er að fela þriðja aðila öryggisgæslu. Ef engin starfsemi er meðan skipið liggur við bryggju er unnt að fela skipinu að sjá um vöktun.

Upplýsingar um frekari reglur varðandi siglingavernd má nálgast á vef Samgöngustofu.

Viðbragðsáætlun við bráðamengun

Kröfur um  viðbragðsáætlanir hafna eru settar fram í reglugerð nr. 1010/2012.

Viðbragðsáætlunin tekur mið af aðstæðum í Hafnarfjarðarhöfn og Straumsvík og er sett til að fljótt sé brugðist við mengunaróhappi og viðbrögðin hæfi tilefninu.

Áætlunin inniheldur niðurstöðu áhættumats, upplýsingar um mengunarvarnarbúnað ásamt útkallslista fyrir starfsfólk hafnarinnar og aðra viðbraðgsaðila og skema yfir þjálfun starfsmanna og prófun búnaðar.

Hér er hægt að sjá nánari upplýsingar  um viðbragðsáætlunar vegna bráðamengunar.