5 skip á fimm dögum

Umferð farþegaskipa hefur verið meiri á þessu sumri í Hafnarfjarðarhöfn en nokkru sinni fyrr.  Um 30 skipakomur verða í sumar, sem er hátt í tvöföldun frá því á sl. sumri.

Hávertíð skipakoma er í júlí og ágúst, en nokkrar skipakomur verða einnig í september.  Næstu fimm  daga munu 5 farþegaskip hafa viðkomu í Hafnarfjarðarhöfn.

Stærsta skipið sem kemur í sumar, Silver Moon,  lagðist við bryggju við Hvaleyrarbakka í morgun, en skipið er um 41 þús. brl.  Skipið hefur hér viðkomu í tvo daga en það tekur um 600 farþega og er með 400 manna áhöfn.

Á morgun fimmtudag kemur eitt af „frönsku heimaskipunum“  Le Boreal og verður hér í þrjá daga við Suðurbakka og á föstudag kemur Amera sem er um 40 þús brl. og liggur við Hvaleyrarbakka.  Le Bellot kemur síðan á á laugardag eins og jafnan í sumar og verður hér fram á sunnudagskvöld og á sunnudag bætist síðan Deutschland í flotann og liggur við Hvaleyrarbakka.

Le Bellot er eina skipið sem er útbúið til landtengingar og verður tengt við nýjan háspennubúnað hafnarinnar í 10 skipti í sumar.