Aukin umferð og bætt afkoma

Aukin umsvif hafa verið í  starfsemi Hafnarfjarðarhafnar síðustu ár og góðar líkur á að sú þróun muni halda áfram  á næstu árum.  Bæði er um viðbót að ræða í löndun og þjónustu við frystitogara og þá ekki síst erlenda úthafsflotann, einkum frá Grænlandi og Rússlandi. 

Jafnframt hefur verið jöfn og góð viðbót í innflutningi á lausavöru um Hafnarfjarðarhöfn og vörugámum um Straumsvíkurhöfn.  Heildartekjur hafnarinnar voru áætlaðar liðlega 620 milljónir fyrir árið 2018, en verða líklega um 660 milljónir.  Þær eru áætlaðar um 676 milljónir á árinu 2019. 

Tekjur hafnarinnar hafa þá aukist frá árinu 2014 um liðlega 200 milljónir eða úr tæplega 500 milljónum á uppfærðu verðlagi  í hátt í 700 milljónir. Þessi þróun hefur aukið mjög álag á starfsemi hafnarinnar yfir lengra tímabil en áður, en háannatími í starfseminni er að jafnaði frá vordögum fram undir haust.

Jákvæðp rekstrarniðurstaða árins 2018 er áætluð um 190 milljónir og liðlega 240 milljónir í áætlun árins 2019. Gert er ráð fyrir samsvarandi umferð bæði fiskiskipa og vöruflutninga um Hafnarfjarðarhöfn á nýju rekstrarári.  Aukning hefur verið í komu stærri skipa síðustu ár og er reiknað með að sú umferð verði sambærileg á komandi ári.  Fjöldi skemmtiferðaskipa hefur verið nokkuð stöðugur, en bókanir fyrir næstu ár gefa til kynna aukna umferð þessara skipa.