Fiskmarkaðshúsið fallið

Fiskmarkaðshúsið við Fornubúðir hefur nú verið jafnað við jörðu og er sannarlega sjónarsviptir af þessari merkilegu byggingu sem var fyrsta húsið á Íslandi sem var sérstaklega hannað og byggt fyrir gólfmarkað og þar tók jafnframt til starfa fyrsti fiskmarkaður á Íslandi árið 1987.

Bygging Fiskmarkaðshússins sem var um 4000 fm. að stærð, hófst í nóvember 1986 fyrir tæpum 35 árum og markaði þáttaskil.  Það var Hafnarfjarðarhöfn og hafnarsjóður sem stóð fyrir framkvæmdinni, en húsið var reist á fyllingu framan við Óseyrarbryggju og skammt frá  nýjum Suðurbakka sem þá var í undirbúningi.

Útvegsmannafélag Hafnarfjarðar stóð fyrir stofnun hlutafélags um rekstur markaðarins.  Voru undirtektir framar öllum vonum, en um 90 aðilar skráðu sig fyrir hlut í félaginu.

Fiskmarkaðurinn markaði tímamót í sjávarútvegsögu hérlendis og með tilkomu markaðarins jukust til muna landanir á ferskfiski í Hafnafjarðarhöfn.  Mikil þróun og breytingar urðu síðar í starfsemi fiskmarkaða með tilkomu tölvuvæðingar og fjaruppboða og fjölmargir markaðir voru stofnsettir víða um land.  

Hafnarfjarðarhöfn seldi Fiskmarkaðshúsið til félags í eigu Haraldar Jónssonar og fjölbreytt starfsemi var í húsinu um langt árabil og síðast var Fiskmarkaður Suðurnesja með starfsemi í austurenda hússins.

Eldur kom upp í vesturhluta hússins í sumarbyrjun 2019 og gjöreyðilagðist það og heyrir nú í dag sögunni til.