Francisca slitnaði frá bryggju

Giftusamlega tókst til við björgun flutningaskipsins Franciscu sem slitnaði frá bryggju við Hvaleyrarbakka um fimmleytið sl. nótt og rak upp að grjótgarði við landfyllingu vestan við olíukerið sem skilur að Hvaleyrarbakka og Suðurbakka.

Hafnarstarfsmenn komu að skipinu á dráttarbátnum Hamri skömmu eftir að skipið slitnaði frá og komu hafnsögumanni um borð í Fransiscu en tókst ekki að losa skipið af staðnum.  Kallað var eftir aðstoð öflugri dráttarbáts og kom Magni á svæðið um 8 leytið eftir stranga siglingu frá Reykjavík en haugasjór var og sló upp í 25 metra að VSV.  Varðskip veitti Magna skjól á leiðinni.

Fljótlega gekk að koma taugum um borð í Hamar og Magna og tókst dráttarbátunum á örskömmum tíma ásamt með vélarafli Franciscu að losa skipið og koma því að Hvaleyrarbakka að nýju.   Liðsmenn björgunarsveita aðstoðuð hafnarstarfsmenn við að binda skipið tryggilega að nýju.  Auk starfsmanna Hafnarfjarðarhafnar og Faxaflóahafna komu að vettvangi fjölmenn sveit björgunarsveitarmanna, auk fulltrúa frá landhelgisgæslu og lögreglu.

Talið er að skemmdir á Franciscu séu óverulegar en skipið lá þannig við landfyllinguna að það slóst ekki utan í grjótgarðinn.   Öllum aðilum sem komu að björgunaraðgerðum eru færðar bestu þakkir.