Fyrsta farþegaskipið landtengt við rafmagn

Frá landtengingu Le Bellot á Sjómannadaginn í Hafnarfjarðarhöfn.  Mynd Guðmundur Fylkisson.
Frá landtengingu Le Bellot á Sjómannadaginn í Hafnarfjarðarhöfn. Mynd Guðmundur Fylkisson.

 

 

Merk tímamót urðu í orkuskiptum og umhverfismálum um Sjómannadagshelgina, þegar nýtt háspennu landtengingarkerfi var tekið í notkun á tveimur stærstu hafnarbökkunum í Hafnarfjarðarhöfn og fyrsta farþegaskipið, Le Bellot frá Frakklandi landtengt, en áður hafði togarinn Baldvin Njálsson verið tengdur við nýja kerfið.

 

Nýja háspennukerfið sem er samtals um 2,5 MW  bætist við öflugt lágspennukerfi sem hefur verið til staðar um árabil.  Með þessari stórauknu viðbót í háspennutengingum sem eru þær fyrstu til almennrar notkunar fyrir skipaflotann í höfnum hérlendis, er hægt að landtengja öflugustu frystitogara og flutningaskip, auk meðalstórra farþegaskipa. 

 

Fyrsta farþegaskipið sem er landtengt hérlendis Le Bellot frá frönsku útgerðinni Ponant lagðist að bryggju við Suðurbakka.  Þetta er í fyrsta sinn sem farþegaskip er landtengt hérlendis.

Um Sjómanndagshelgina voru á annan tug fiskiskipa, togara, rannsóknarskipa og farþegaskipa í höfn í Hafnarfirði og voru þau öll landtengd með allt upp í 350 ampera tenglum, en með nýjum háspennubúnaði er hægt að veita allt að 1,2 MW í stærstu skipin.

Hér á þessari slóð https://www.ruv.is/utvarp/spila/samfelagid/23617/7hl5s2 má heyra viðtal RÚV við Lúðvík Geirsson hafnarstjóra um nýju landtengirnar.