Góð 14 mánaða reynsla af háspennutenginum -nánast enginn stuðningur frá stjórnvöldum

Hátt í  60 sinnum hafa farþegaskip og frystitogarar verið tengdir við háspennu-landtengingarkerfi Hafnarfjarðarhafnar frá því það var tekið í notkun í júní 2022.

Hafnarfjarðarhöfn var fyrst íslenskra hafna til að setja upp almennar háspennutengingar fyrir meðalstór farþegaskip og aflfreka frystitogara.  Nýja háspennukerfið er á bæðum aðalhafnarbökkum hafnarinnar, Suðurbakka og Hvaleyrarbakka.  Það kemur til viðbótar öflugu lágspennu-landtengingarkerfi sem hefur verið til staðar um áratuga skeið.

Fleiri hafnir hérlendis eru að taka upp sambærilega kerfi og er í Hafnarfjarðarhöfn.  Faxaflóahafnir tóku í notkun í vikunni háspennukerfi við Miðbakka fyrir meðalstór farþegaskip og Hafnir Norðurlands eru að byggja upp háspennutengikerfi á Akureyri.

Það vekur athygli að opinber stuðningur til þessara framkvæmda er nánast enginn.  Allar þessar þrjár hafnir sóttu um styrk úr Orkusjóð í þessi landtengingaverkefni sem eru mjög kostnaðarsöm.  Enginn stuðningur var veittur við úthlutun nú fyrir skemmstu.

Stjórn Hafnasambandsins samþykkti harðorða bókun vegna þessa á  fundi sínum á dögunum þar sem segir m.a.:

Fyrir liggur að í seinustu úthlutun Orkusjóðs hafnaði sjóðurinn öllum umsóknum um styrki vegna almennra landtenginga fyrir fiskiskip og uppsetningar á búnaði á hafnarsvæðum til að landtengja farþegaskip og önnur stór og aflfrek skip. Ekki er hægt að líta á afstöðu Orkusjóðs með öðrum hætti en að uppbygging landtenginga á hafnarsvæðum sé hvorki forgangsmál stjórnvalda né skipti miklu í þeim mikilvægu orkuskiptum sem þjóðin stendur frammi fyrir, þrátt fyrir að lagt hafi verið upp með að þriðjungur af þeim nær milljarði sem var til úthlutunar hafi verið eyrnamerktur verkefnum til að minnka notkun á jarðeldisnotkun í flutningum og siglingum.  

Og síðar segir í ályktunni.

Stjórn Hafnasambands Íslands lýsir mikilli óánægju með afstöðu Orkusjóðs og fer fram á endurskoðun hennar ellegar að breytingar verði gerðar á úthlutunarreglum sjóðsins.