Góð afkoma og mikil uppbygging

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarhafnar fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir að heildartekjur hafnarsjóðs verði um 702 milljónir króna. Helstu forsendur tekjuáætlunar eru að almenn umferð og umsvif verði sambærileg og á árinu 2019, aukning verði í almennum lausaflutningum og aflagjöld verði sambærileg og undanfarin ár. Fjölgun verður í heimaflota með komu rannsóknarskipa Hafrannsóknarstofnunar og einnig er fyrirséð þó nokkur fjölgun í komum farþegaskipa á komandi ári. Gjaldskrá hafnarinnar mun hækka í samræmi við lífskjarasamning, eða innan við 2,5% frá 1. janúar 2020.

Almenn rekstrarútgjöld hækka lítillega vegna aukinna framlaga til viðhaldsverkefna og gert er ráð fyrir nokkurri hækkun á launaliðum í framhaldi afnýjum kjarasamningum. Þá munu afskriftir fastafjármuna hækka nokkuð. Sú viðbót er vegna afskrifta á nýja hafnarsvæðinu utan Suðurgarðs, en nú hefur öllum lóðum á svæðinu verið úthlutað. Rekstrarafkoma ársins 2020 er áætluð um 230 milljónir þrátt fyrir umtalsverða hækkun afskrifta fastafjármuna frá fyrra ári, eða úr 64 milljónum í rúmar 96 milljónir.

Helstu framkvæmdir hafnarsjóðs á árinu 2020 verða lok framkvæmda við Háabakka – trébryggja og frágangur á yfirborði, endurbætur á Norðurgarði, frágangur á hafnarsvæði vestan við Hvaleyrarbakka, undirbúningur fyrir öflugri raftengingu til skipa á Suðurbakka og uppsetning Led-lýsingar við Suðurbakka. Allar fjárfestingar verða greiddar af eigin fé hafnarinnar.

Helstu framkvæmdir hafnarsjóðs á næstu árum munu snúa að uppbyggingu á hafnarsvæðinu frá Háabakka út undir Vesturhamar. Undirbúa þarf byggingu nýrrar smábátahafnar, með hafnargarði og góðu viðlegurými, auk nýrrar aðstöðu fyrir Siglingaklúbbinn Þyt við Drafnarslippinn. Þá gera tillögur ráð fyrir endurbyggingu á hafnarkanti allt frá Óseyrarbryggju út að slippsvæðinu og byggingu nokkurra þjónustubygginga innan lóðarmarka hafnarinnar. Í langtímaáætlun hafnarsjóðs fyrir árin 2021 til 2023 er gert ráð fyrir fyrstu áföngum í undirbúningi og framkvæmdum á þessu svæði.