Góð veiði á "bakkanum"

Fjöldi veiðimanna hefur nýtt sér blíðuna undanfarna daga til að dorga við Norðurbakkann og á Norðurgarðinum og margir gert góða veiði.

Ágætar fiskigöngur hafa verið í Firðinum síðustu daga eins og jafnan á þessum tíma og þorskurinn leitar alveg upp að hafnarköntum og í innri höfnina.  Smábátar hafa verið að afla vel rétt utan við hafnargarðana og margir dorgarar einnig sett í þann gula við Noðurbakkann eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Nú standa yfir framkvæmdir við grjótfyllingu við gamla stálþilið á Norðurbakka sem er komið á sjötugsaldurinn, en svæðið þar sem veiðimenn halda sig gjarnan og fengsælustu miðin eru, nyrst á bakkanum, verður með óbreyttu sniði.

Í  framhaldinu af þessum framkvæmdum og frágangi á yfirborði Norðurbakkans verður farið í styrkja og hækka Norðurgarðinn.  Þar verður m.a. gott útsýnissvæði bæði út Fjörðinn og inn í fjarðarbotninn.  Þá verður einnig  útbúin  aðstaða fyrir veiðmenn við innanverðan garðinn.