Lóðsbáturinn Þróttur hefur nú verið í þjónustu Hafnafjarðarhafnar í samtals 50 ár, eða frá árinu 1969.
Báturinn var smíðaður í Kópavogi árið 1963, sem fiskibátur og er því kominn vel á sextugsaldurinn. Þróttur er 13.54 m að lengd og 4 m breiður með Catipillar 360 hp vél og togkraft uppá 3,8 tonn.
Töluverðar endurbætur og breytingar hafa verið gerðar á Þrótti á þessum tíma sem hann hefur verið að þjóna höfninni, lengi vel sem eini bátur hafnarinnar.
Árið 1973 var framþilfarið sléttað á Þrótti og settir fenderar á stefni og bóga, dráttarkrókur og steypt kjölfesta. Ný aðalvél var sett í bátinn árið 1974 og nýtt stýrhús með tækjum og búnaði árið 1985. Aðalvél var tekin upp árið 1991 og nú á 50 ára þjónustuafmælinu fær Þróttur allsherjarupptekt. Aðalvél verður tekin upp og yfirfarin, skrokkur sandblásinn, málað og endurbætt þannig að báturinn komist í besta stand og geti nýst höfninni sem lipur og góður lóðsbáttur og „púllari“ um einhver ókomin ár.