Langreyður á „perunni“

Þegar malarflutningaskipið Nordfjord kom að Hvaleyrarbakka í Hafnarfjarðarhöfn um hádegisbil í gær, urðu hafnarstarfsmenn varir við að eitthvað torkennilegt lá utan á perustefni skipsins.  Í ljós kom að það var hvalur, sem skipið hafði siglt á úti á Faxaflóa og borið með sér á perunni alla leið í höfn. 

Í fyrstu var talið um um hrefnu væri að ræða en við nánari skoðun sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, sem sem eru með sínar höfuðstöðvar við hafnarbakkann í Hafnarfirði, kom í ljós að hér var langreyður á ferðinni, um 17 metra langur.

Hvalinn rak frá malarskipinu í gær undan stífri austanátt inn í grjótgarðinn þar sem flotkvíin liggur.  Erfitt var að komast að hvalnum, í bröttum grjótgarðinum,  en með aðstoð félaga úr björgunarsveit Hafnarfjarðar tókst um miðjan dag í gær að koma tógi á hvalinn.  Stefnt er að því að draga hann úr höfninni á  morgunflóðinu í fyrramálið.  Þá munu sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar taka sýni úr hvalnum og honum síðan sökkt á sínum fyrri heimaslóðum.