Mikil umferð á hafnarsvæðinu

Mikil umferð hefur verið um Hafnarfjarðarhöfn síðustu daga og vikur.  Munar þar mikið um skipa- og togaraflota Grindvíkinga sem hefur komið til löndunar og viðlegu í Hafnarfirði, eftir að jarðhræringar lokuðu fyrir allt atvinnulíf og starfsemi í Grindavík fyrr í þessum mánuði.

Löndunarfélagið Klafar hefur flutt alla starfsemi sína í Hafnarfjarðarhöfn til að þjónusta Grindavíkurflotann og fleiri starfsmenn og þjónustuaðilar munu væntanlega fylgja skipum og togurum heimamanna hingað í Fjörðinn.  

Þessi fjöldi skipa  kemur til viðbótar góðri umferð erlendra togara og flutningaskipa hér á hafnarsvæðinu en í þessari viku eru nær 20 skip og togarar við landfestar í höfninni einsog sjá má á eftirfarandi skipalista.  Reikna má með að það verði þéttskipað í Hafnarfjarðarhöfn um komandi jól og áramót.