Myndskreytingar við farþegabakkann

Hafnarfjarðarhöfn í samvinnu við kynningardeild Hafnarfjarðarbæjar hefur látið útbúa veggtjöld með margvíslegu kynningarefni um Hafnarfjörð.  Veggtjöldin hafa verið fest upp á öryggisgirðingar við Suðurbakkann þar sem farþegaskipin leggjast að.

Myndefnið sýnir ýmsa áhugaverða staði í bænum  og bæjarlandinu og helstu kennileiti, auk þjónustustaða s.s. sundlauga og fleira sem áhugavert er fyrir ferðamenn. Um 30 farþegaskip munu koma til Hafnarfjarðar á þessu sumri, fleiri en nokkru sinni áður.

Þá hafa einnig verið settar upp kynningarmyndir af skipulagstillögum sem eru í vinnslu fyrir deiliskipulag Flensborgarhafnar og nýrrar Hamarshafnar.  Þær myndir eru ofanvert við Háabakka, skammt frá húsi Hafrannsóknarstofnunar og aðgengilegar fyrir alla  á opnu hafnarsvæði.