Samið við Þytur um skútubryggjuna

Gunnar Geir Halldórsson formaður Þyts og Lúðvík Geirsson hafnarstjóri undirrita samninginn.
Gunnar Geir Halldórsson formaður Þyts og Lúðvík Geirsson hafnarstjóri undirrita samninginn.

Hafnarfjarðarhöfn og Siglingaklúbburinn Þytur hafa gert með sér samkomulag um afnot og rekstur á svonefndri skútubryggju í Flensborgarhöfn, en bryggjan liggur framan við höfuðstöðvar siglingaklúbbsins.  

Bryggjan var stækkuð fyrir skömmu og er nú alls 55 metrar.  Alls verða 15 viðlegurými við vestanverða bryggjuna en að austanverðu er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir þjónustubáta Þyturs og gestaskútur sem koma hingað yfir sumartímann.

Þytur mun annast almenna þjónustu og daglega stýringu á bryggjunni auk rafmagnssölu.  Fyrir þá þjónustu fær klúbburinn  til afnota fjögur viðlegurými og forgang að helming bryggjunar að austanverðu fyrir siglinganámskeið og almenna þjónustu við siglingamenn.

Útleiga á föstum stæðum á skútubryggju verður sem áður á hendi hafnarskrifstofu og höfnin mun sjá um viðhald og tryggja að allur öryggisbúnaður á bryggjunni sé í samræmi við lög og reglur.