Stórátak í orkuskiptum

 

Hafnarfjarðarhöfn hefur gert samning við norska fyrirtækið PSW Power & Automation um kaup háspennutengibúnaði í gámalausnum fyrir bæði rið- og spennubreyta.   Kaupin eru  gerð í framhaldi af útboði sem fram fór á evrópska efnahagssvæðinu sem Ríkiskaup önnuðust fyrir hönd hafnarinnar.

Þrjú fyrirtæki buðu í búnaðinn og var tilboð PSW hagstæðast, nánast á kostnaðaráætlun eða um 100 milljónir.  Þessi nýi búnaður verður afhentur á vordögum 2022 og þá verður hægt að koma á viðbótarafli uppá rúmt 1 MW inná bæði Hvaleyrarbakka og Suðurbakka.  Þar með verður hægt að raftengja, frystiskip, stærri farmskip og einnig þau farþegaskip sem koma til Hafnarfjarðarhafnar.

Verið er að tengja viðbótarafl inná Hvaleyrarbakka og sér fyrirtækið Orkuvirki um þá vinnu og síðar á árinu verður gengið frá tengingum inná Suðurbakka, þar sem farþegaskipin leggja að.

Fjögurra ára verkáætlun Hafnarfjarðarhafnar um stóreflingu á rafkerfi hafnarsvæðisins og uppbyggingu fyrir þessu orkuskipti á stærstu viðlegubökkum er uppá liðlega 600 milljónir króna.

-Þetta er stefnumörkun hafnarinnar í umhverfismálum til draga úr mengun og hávaða frá ljósavélum og tryggja vistvænt og gott umhverfi hér á hafnarsvæðinu í næsta nábýli við íbúabyggð og miðbæ Hafnarfjarðar, segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri.