Um 400 skipakomur árið 2019

Alls komu 389 stærri skip og togarar til Hafnarfjarðarhafnar á nýliðnu ári.  Það er sambærilegur fjöldi og á árinu 2018 en skipakomum hefur fjölgað nokkuð síðustu ár, en á árinu 2014 komu samtals 317 skip til Hafnarfjarðar og Straumsvíkur.

Af þessum 389 skipum voru 137 erlendir togarar, 71 íslenskur togari, 134 vöruflutningaskip, þar af helmingur sem kom til Straumsvíkurhafnar.  Þá voru farþegaskip 16 talsins, önnur stærri skip 9 og stærri fiskibátar 22.

Heildarvöruflutningar á svæði Hafnarfjarðarhafnar voru um 983 þúsund tonn á árinu 2019 og drógust saman um liðlega 150 þús. tonn frá árinu á undan.  Skýringin á því er fyrst og fremst minnkun á aðflutningum á hráefni til Straumsvíkur eftir að kerskáli 3 féll út úr rekstri á haustmánuðum og einnig varð alger brestur á löndun á markríl og loðnu. 

Alls var innflutningur á sl ári liðlega 717 þús tonn á móti 857 þúsund tonnum árið 2019.  Útflutningur var um 265 þúsund tonn á móti liðlega 290 þúsund tonnum árið 2018 og munar þar mest um minni útflutning á áli frá Straumsvík á lokamánuðum ársins.

Liðlega 42 þúsund tonnum af sjávarafurðum var landað í Hafnarfirði á árinu 2019 um 10 þúsund tonnum minna en árið á undan. Af lausavöru var landað um 100 þúsund tonnum af malarefni sem er það næst mesta á umliðnum árum, um 45 þúsund tonnum af olíu sem er það mesta um langt árabil og rétt liðlega 12 þúsund tonnum af salti sem er nokkuð minna en undanfarin ár og skýrist fyrst og fremst af hagstæðu veðurfari á sl. vetri.

Sjá nánar tölfræði um skipakomur og vöruflutninga.