Milljón tonn um höfnina

Heildarvöruflutningar um Hafnarfjarðarhöfn og Straumsvíkurhöfn á sl. ári námu liðlega 1 milljón tona sem er svipað og síðustu ár.    Þá var skipaumferð um höfnina nánast sú sama og á árinu 2022 eðpa um 460 stór skip og fiskibátar ssem er umtalsverð fjölgun frá því sem hefur verið á umliðnum árum.

Vöruinnflutningur um höfnina á árinu  2023 var um 760 þús tonn, um 35 þús tonnum minni en á árinu 2022 og munaði þar mestu um minni innflutning á möl og salti.  Vöruútflutningur var einnig aðeins minni en árið á undan eða tæp 250 þús tonn.  Munar þar um minni útflutning á brotajárni.

Alls komu 29 farþegaskip til Hafnarfjarðar á sl ári og fjölgaði um þriðjung frá árinu á undan.  Einnig var nokkur fjölgun í komum farmskipa, en þau voru alls 121 á móti 109 á árinu 2022.   Þá komu 124 innlendir og erlendir togarar til hafnar í Hafnarfirði á árinu og 41 fiskibátur.  Í heildina tekið hefur skipakomum til Hafnarfjarðarhafnar fjölgað um nær 100 frá því sem var um miðjan síðasta áratug. 

Heildarafli sem kom á landi í Hafnarfirði á sl. ári var liðlega 39 þús tonn og var það aukning um nær 10% frá árinu á undan og er heildarafli að nálgast þær aflatölur sem voru á síðasta ártug þegar rússneskir togarar lönduðu hér umtalsvert af djúpkarfa.  Af þeim afla sem landað var á sl. ári kom ríflega helmingur eða 22 tonn frá erlendum togurum og liðlega 17 þús tonn frá innlendum togurum.