Umtalsverð aukning í skipaumferð

Þó nokkur aukning var í umferð skipa um Hafnarfjarðarhöfn á síðastliðnu ári miðað við undanfarin ár.  Alls voru skipakomur í Hafnarfjarðarhöfn og Straumsvík 479 á móti 440 á árinu á undan.   Þessi aukning er þrátt fyrir hafnbann á rússneska togara en komur þeirra hafa verið fjölmargar undanfarin ár.

Mest var aukningin í komum íslenskra togskipa og fiskibáta, en alls komu 133 togarar og 78 bátar til Hafnarfjarðar á nýliðinu ári á móti 112 togurum og 22 fiskibátum árið á undan.  Hins vegar fækkaði komum erlendra togarar úr 105 í 83 og munar þar fyrst og fremst um rússnesku togarana.

Heildarafli sem kom á land á sl. ári var 32.500 tonn sem er nokkru minna en árið á undan og munar þar um afla rússatogaranna sem lönduðu nær 12 þús. tonnum af djúpkarfa á árinu 2021.  Aukning í löndum íslenska togskipa og báta var hins vegar uppá nær  8.500 tonn.

 

Heildarvöruflutningar um hafnarsvæði Hafnarfjarðarhafnar voru nánast þeir sömu og á árinu 2021  eða um 1.1 milljón tonn.  Smávægilegur samdráttur var á vöruflæði til og frá Straumsvík en alls komu 66 farmskip í Straumsvíkurhöfn á árinu 2022 og heildarumfang vöruflutninga um höfnina var nær 794.000 tonn.

Töluverð aukning varð hins á innflutningi á malarefnum og salti í Hafnarfjarðarhöfn, en heildarvörumagn sem fór um höfnina var 205 þús. tonn á móti liðilega 160 þús tonnum árið 2021.


Sjá nánar tölfræði um skipakomur og vöruflutninga á árinu 2022.